Sögulegt samhengi

 

Upphaf og upphaflegt hlutverk

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum nr. 89/1966 sem sett voru á Alþingi þann 17. desember 1966. Samkvæmt 1.gr. þeirra laga er hlutverk sjóðsins að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Mátti jöfnum höndum styrkja framkvæmdir og rannsóknir til lækkunar framleiðslukostnaðar og til þess að laga landbúnaðarframleiðsluna að markaðsaðstæðum innan lands og utan. Þannig gátu einstakir bændur, afurðastöðvar, rannsóknastofnanir o.fl. aðilar leitað eftir lánum eða styrkjum úr sjóðnum. Þessi tilvitnaða lagagrein hefur reynst traust forsögn um það hlutverk sem sjóðnum er ætlað að rækja. Allt til ársins 1980 voru sjóðnum markaðar tekjur á fjárlögum og var þeim aðallega varið til endurskipulagningar í afurðastöðvum landbúnaðarins, tankvæðingu, mjólkurflutninga, ýmissa rannsóknarverkefna o.þ.h. Framlag ríkisins á fyrsta ári nam 20 mkr. og hélst að mestu óbreytt að krónutölu næstu árin og rýrnaði því að verðgildi.

Með lögum nr. 43/1979 sem fólu í sér skerðingu á jarðabótaframlögum var ákveðið að mismun sem næmi skerðingunni væri veitt til Framleiðnisjóðs. Þessu fé skyldi ráðstafað til að efla nýjar búgreinar og hverja til nýjunga í búrekstri. Einnig var m.a. veittur stuðningur til að auka nýtingu veiði og annarra hlunninda auk meiri áherslu á framlög til rannsókna. Þetta tímabil nær fram til ársins 1985. Ráðstöfunarfé sjóðsins varð töluvert meira en áður en á síðari hluta tímabilsins uppfyllti Alþingi ekki lagaákvæði um þessi framlög.

 

Búvörulög nr. 46/1985 og búvörusamningar

Með setningu búvörulaganna (lög nr. 46/1985) verða þáttaskil í íslenskum landbúnaði. Við tók gjörbreytt rekstrarumhverfi sem m.a. flutti áhættuna af afsetningu afurðanna frá framleiðendum mjólkur og kindakjöts til afurðastöðvanna, en tryggði framleiðendum fullt verð á innanlandsmarkaði. Útflutningsbótaábyrgð var skert um helming frá því sem áður var með það að markmiði að hún félli alveg niður síðar, þ.e.a.s. markmið laganna var að semja landbúnaðarframleiðsluna að þörfum innanlandsmarkaðarins. 4/5 hlutum þess sem sparaðist í útflutningsbótum fram til ársins 1992 átti að ráðstafa til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og gekk það eftir að mestu. Þessum fjármunum skyldi varið til aðlögunar að breyttum aðstæðum á grundvelli búvörusamningsins sem gilti til ársins 1992 og til þess að efla nýbreytni og nýsköpun í atvinnulífi dreifbýlisins.  Það var að hluta til gert með leigu og kaupum á fullvirðisrétti og styrkjum til búháttabreytinga. Heildarráðstöfun sjóðsins á því tímabili nam u.þ.b. 3000 millj.kr.

Í búvörusamningi þeim sem undirritaður var í mars 1991 var gert ráð fyrir all nokkru framlagi til sjóðsins árin 1993-1997 eða alls 1200 mkr. auk verðbóta á tímabilinu. Því fé var ætlað til atvinnuuppbyggingar og til framleiðniaukandi verkefna. Var það gert með svipuðum hætti og fyrr en uppkaup framleiðsluréttar með milligöngu Framleiðnisjóðs heyrðu sögunni til. Vægi rannsóknar- og þróunarverkefna jókst. Árið 1992 var tekið upp samstarf við Rannsóknaráð (ríkisins) Íslands og stofnað var til þróunaráætlana einstakra búgreina.

 

Búnaðarlög nr. 70/1998

Í Búnaðarlögum, sem sett voru á Alþingi 15. júní 1998, er að finna ákvæði í 3. grein. sem gerir ráð fyrir fjármögnun Framleiðnisjóðs sem þætti í samningum landbúnaðarráðherra og Bændasamtaka Íslands um fjárframlög til landbúnaðarins. Sem fyrr er höfuðáherslan á atvinnuuppbyggingu í sveitum og verkefni sem stuðla að aukinni framleiðni í íslenskum landbúnaði.