Sigríður Bjarnadóttir ráðin framkvæmdastjóri Framleiðnisjóðs landbúnaðarins

Starf framkvæmdastjóra Framleiðnisjóðs landbúnaðarins var auglýst laust til umsóknar um miðjan janúar. Stjórn Framleiðnisjóðs fékk ráðningarfyrirtækið Hagvang í lið með sér og höfðu starfsmenn þess umsjón með ráðningarferlinu.
Nú hefur verið gengið frá ráðningu Sigríðar Bjarnadóttur í starfið  en Sigríður var valin úr hópi margra hæfra umsækjenda.  Sigríður er fædd 1967 og hefur lokið fjölbreyttri menntun og á að baki margvíslega starfsreynslu. Hún hefur lokið meistaragráðu í búfjárrækt frá Landbúnaðarháskólanum á Ási í Noregi, BS gráðu í hestafræði frá Háskólanum á Hólum, auk búfræðináms og diplómanáms í ferðamálafræði frá Hólum. Hún hefur jafnframt lokið kennsluréttindanámi á framhaldsskólastigi frá Háskólanum á Akureyri.  Sigríður starfaði sem ráðunautur um árabil, m.a. í ýmsum rekstrartengdum verkefnum. Hún hefur einnig starfað við bókhald og við mjólkureftirlit hjá MS. Þá hefur hún starfað sem tilraunastjóri og sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og hjá Norræna búfjárgenabankanum á Ási í Noregi. Sigríður stundar auk þess búrekstur í Hólsgerði í Eyjafjarðarsveit og hefur unnið með útgáfu- og kynningarsviði Bændasamtaka Íslands að verkefninu Dagur með bónda. Þá er Sigríður sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar.
Sigríður Bjarnadóttir tekur við starfinu um mitt sumar en mun sinna afmörkuðum verkefnum fyrir sjóðinn fram að þeim tíma.